Innlent

Hringsnerist á veginum, lenti á ljósastaur og hafnaði utan vegar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Reykjanesbraut.
Reykjanesbraut. vísir/vilhelm
Lögreglan á Suðurnesjum vekur athygli á töluverðum fjölda umferðaróhappa sem orðið hafa í umdæminu á undanförnum dögum.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að eitt óhappið hafi orðið með þeim hætti að ökumaður sem ók fram úr bifreið á Reykjanesbraut missti vald á sinni bifreið með þeim afleiðingum að hún fór að hringsnúast á veginum, lenti á ljósastaur og hafnaði að lokum utan vegar.

Annar ökumaður virti ekki biðskyldu og ók á bifreið sem var á ferð eftir Stapabraut í Njarðvík.

Þá var bifreið ekið á kerru sem stóð á miðjum Garðvegi. Beislið á kerrunni hafði brotnað og ekki tekist að fjarlægja hana í tæka tíð áður en óhappið varð.

Ekki urðu alvarleg meiðsl á fólki í þessum óhöppum en nokkurt eignatjón.

Þá greindi lögreglan á Suðurnesjum frá fjögurra bíla árekstri nærri Flugstöð Leifs Eiríkssonar í gær. Ökumaður einnar bifreiðarinnar kenndi eymsla eftir óhappið og var fluttur með sjúkrabíl á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×