„Umfjöllunin hefur verið óvönduð og beinlínis röng, en gefið hefur verið í skyn að Bremenports krefjist þess að sveitarfélögin taki á sig fjárhagslegar ábyrgðir framkvæmdaraðila fyrir milljarða króna,“ segir í bókun sem Siggeir lagði fram á síðasta sveitarstjórnarfundi.
Fréttablaðið sagði frá því 1. febrúar síðastliðinn að í skýrslu lögmanna Langanesbyggðar og Vopnafjarðarhrepps komi fram að sveitarfélögin hefðu neitað að taka á sig fjárhagslegar ábyrgðir og skuldbindingar vegna stórskipa- og olíuþjónustuhafnarinnar.

„Bremenports telur frekar líklegt að fjárfestar sem munu koma að uppbyggingu í Finnafirði í framtíðinni muni þurfa tryggingar fyrir því að útgefandi sérleyfis geti ekki hlaupist undan sínum skyldum á gildistíma sérleyfisins.
Það hefur ekkert með ábyrgðir, tryggingar eða fjárhagslegar skuldbindingar fyrir háum fjárfestingum sérleyfishafans að gera, eða að sveitarfélögin þurfi að veita slíkar tryggingar,“ fullyrðir Siggeir í bókun sinni.
Sjá einnig: Neita að ábyrgjast höfn fyrir tugmilljarða króna
Að sögn Siggeirs getur sérleyfishafi líklega illa fjármagnað framkvæmdir nema að tryggt sé að útgefandi sérleyfis geti undir öllum tilvikum staðið við sínar skuldbindingar.
„Það er og hefur alltaf verið öllum aðilum ljóst frá byrjun að sveitarfélögin munu ekki hafa bolmagn til að koma með fjármagn í þetta verkefni. Viðkomandi verkefni hefur verið í skoðun hjá Langanesbyggð í mörg ár og getur ef vel tekst til skipt sköpum fyrir framtíðarbúsetu á svæðinu. Verkefnið er stórt langtímaverkefni og því nauðsynlegt að stíga varlega til jarðar. Því er mikilvægt að sveitarstjórnarmenn sýni samheldni og gangi í takt í þessu máli,“ undirstrikar oddvitinn fyrrverandi.