Næsti leikur liðsins er á móti bikarmeisturum Tindastóls í Ljónagryfjunni í Njarðvík í kvöld. Miðherjinn Ragnar Águst Nathanaelsson fékk góð ráð fyrir kvöldið úr óvæntri átt.
Raggi Nat eins og við þekkjum hann auglýsir leik kvöldsins á Twitter með því að vitna í ungan vin sinn frá Njarðvík eins og sjá má hér fyrir neðan.
“Segðu Loga og Maciek að taka fleiri þrista og þú alltaf troða. Ekki fara í ley-up, þú klúðrarar alltaf!!” þessi sjö ára börn í Njarðvík kunna að peppa mann upp fyrir síðasta heimaleik í deildinni... PS. 19:15 allir í Ljónagryfjuna!
— Ragnar Nathanaelsson (@RaggiNaT) March 5, 2018
„Þessi sjö ára börn í Njarðvík kunna að peppa mann upp fyrir síðasta heimaleik í deildinni,“ skrifaði Ragnar og nú er að sjá hvað kappinn gerir í leik kvöldsins.
Ragnar Águst Nathanaelsson er með 7,8 stig og 8,0 fráköst að meðaltali í leik í Domino´s deildinni á þessu tímabili.
Eftir tap á móti Haukum og Keflavík er ljóst að Njarðvíkingar þurfa að passa sig ætla þeir ekki að detta niður um fleiri sæti fyrir lok deildarkeppninnar. Liðið er nú í sjötta sæti en var í fimmta sæti fyrir 21. umferðina sem lýkur í kvöld.
Njarðvík gæti dottið niður í sjöunda sætið eftir úrslitin í kvöld takist nágrönnum þeirra í Keflavík að ná þeim að stigum.