Deildarkeppni Domino's deildar karla í körfubolta kláraðist á fimmtudaginn og úrslitakeppnin hefst í næstu viku. Það hafa ófá mistökin litið dagsinis ljós og fór Fannar Ólafsson yfir það sem stóð upp úr í „Fannar skammar“ í uppgjörsþætti Domino's Körfuboltakvölds í gærkvöld.
Fannar var ekki lengi að koma sér í gírinn, myndbandið var kynnt til leiks og fyrstur á skjáinn var Sigurður Gunnar Þorsteinsson, leikmaður Grindavíkur.
„Siggi, í fyrsta lagi rakaðu af þér þetta skegg. Það minnkar ekkert á þér skallann.“
Þegar komið var að Loga Gunnarssyni vildi Fannar ekki segja orð. Hins vegar hafði hann ýmis orð um Björn Kristjánsson.
„Í alvöru talað. Þú ert búinn að vera í körfubolta í 82 ár, Bjössi.“
Fannar vildi heldur ekki segja neitt um Ragnar Nathanaelsson og þá sakaði Jón Halldór Eðvaldsson Fannar um að vera orðinn of „soft.“
„Ég held í alvöru talað að smjörsalan sé að styrkja einhverja af þessum drengjum. Þeir þurfa að fara að fá sér firm grip,“ sagði Fannar.
Þessa stórskemmtilegu syrpu má sjá hér fyrir ofan.
