Marcos Alonso kom inná sem varmaður á 79. mínútu leiksins og lék sinn fyrsta A-landsleik fyrir Spán. Hann hafði spilað þrjá leiki fyrir 19 ára landsliðið fyrir níu árum síðan en nú kom fyrsti A-landsleikurinn loksins þegar hann er orðinn 27 ára.
Það verður þó að taka það fram að það er allt annað en auðvelt að komast í þetta frábæra spænska landslið en flott frammistaða Marcos Alonso með Chelsea síðustu tvö tímabil kom honum loksins í spænska landsliðsbúninginn.
Marcos Alonso setti nýtt met með þessari innkomu í fyrrakvöld. Þetta er nefnilega í fyrsta sinn sem afi, faðir og sonur ná því að spila allir fyrir spænska landsliðið.
Entra Marcos Alonso y de esta manera España tiene su primera saga Abuelo-Padre-Hijo de internacionales: Marcos Alonso Imaz "Marquitos", Marcos Alonso Peña y Marcos Alonso Mendoza.
— MisterChip (Alexis) (@2010MisterChip) March 27, 2018
Faðir Marcos Alonso hét Marcos Alonso Pena og spilaði sem vængmaður. Hann lék sinn fyrsta landsleik árið 1981 og endaði með því að spila 22 landsleiki. Hann spilaði bæði fyrir Barcelona og Atlético Madrid á sínum ferli.
Marsmánuður var góður mánuður fyrir þá alla. Marcos Alonso spilaði sinn fyrsta landsleik 27. mars 2018, Marcos Alonso Pena lék sinn fyrsta A-landsleik 25. mars 1981 og Marcos „Marquitos“ Alonso Imaz lék sinn fyrsta landsleik fyrir Spán 17. mars 1955.