Karembeu kom til Íslands í morgun í vel myndskreyttri flugvél, en með í för var hin eina sanna HM stytta, verðlaunagripurinn sem Karembeu lyfti í Frakklandi 1998.

Karembeu var hluti af franska landsliðinu sem vann á heimavelli árið 1998, fyrir 20 árum síðan.
„Það er ein af mínum uppáhalds minningum. Sem fótboltamaður er aðal markmiðið að ná í verðlaun og þarna rættist draumur okkar allra,“ sagði Karembeu í viðtali við íþróttadeild í dag.
Karembeu afhjúpaði verðlaunagripinn, sem er 6kg og 18 karöt af gulli, með viðhöfn inni í flugvélinni sem flutti þá báða, Karembeu og gripinn, til landsins í dag.
„Ég er ótrúlega heppin að hafa spilað með svona frábæru liði sem gaf mér tækifæri á að lyfta bikarnum. Það er töfrum líkast og lifir með manni að eilífu.“
Aðeins einn maður á Íslandi má lyfta bikarnum, Guðni Th. Jóhannesson forseti, því aðeins æðstu ráðamenn hvers lands og leikmenn sem hafa unnið keppnina mega lyfta styttunni.

„Að sjálfsögðu man ég eftir þeim leik. Við vorum heimsmeistarar, mættum hingað og héldum að þetta yrði auðvelt. En ekkert fór eins og við bjuggumst við.“
„Ísland skoraði fyrsta markið [Ríkharður Daðason skoraði með laglegum skalla] og við þurftum að hlaupa og berjast til að ná jafnteflinu. Þetta var ekki auðveldur leikur og þeir stóðu sig vel.“
Ísland var ekki hátt skrifað í fótboltaheiminum á þeim tíma en hefur eins og alþjóð veit risið hátt á síðustu árum og hefur það ekki farið framhjá Karembeu. Hann taldi íslensku strákana geta náð langt í Rússlandi.
„Margt getur komið á óvart í Rússlandi. Senegal komst langt árið 2002, Gana 2010, svo afhverju ekki? Ísland getur náð langt.“
„Ég mun koma hingað ef þið fagnið aftur eins og eftir EM.“
„Allir geta unnið bikarinn. Auðvitað eru menn eins og Messi hjá Argentínu, Neymar í Brasilíu og Özil og fleiri í þýska liðinu, við erum með Pogba og Griezmann, en þetta er mjög opin keppni,“ sagði fyrrum heimsmeistarinn Christian Karembeu.