Körfubolti

Ætlar að borga 2,5 milljóna sekt liðsfélaga síns

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chris Paul.
Chris Paul. Vísir/Getty
Houston Rockets liðið er að gera frábæra hluti í NBA-deildinni í körfubolta í vetur og þar er greinilega sterkur liðsandi ef marka má nýjustu fréttirnar úr herbúðum Eldflauganna.

Gerald Green, leikmaður Houston Rockets liðsins, var í gær sektaður um 25 þúsund dali, 2,5 milljónir íslenskra króna, fyrir að hrinda miðherja Minnesota Timberwolves, Gorgui Dieng, í leik á dögunum.

NBA tekur mjög hart á öllum slagsmálum inn á vellinum og hikar ekki við að senda viðkomandi leikmönnum stórar sektir.

Gerald Green var rekinn út úr húsi fyrir þetta í leiknum sjálfum og fékk síðan sektina í ofanálag. Málið var að Green var þarna að koma til varnar liðsfélaga sínum. Dieng hafði rétt áður hrint Chris Paul í gólfið.





„Ég kom bara þarna til að standa með mínum liðsfélaga. Ég sá þetta gerast og brást við. Ég þarf núna að takast á við afleiðingarnar,“ sagði Gerald Green eftir leikinn.

Chris Paul fær mun hærri laun en Gerald Green og hann var fljótur að bjóðast til að borga sektina fyrir hann. Houston Chronicle sagði frá því.







Chris Paul er með 24,6 milljónir dollara í laun á þessu tímabili en Gerald Green fær 28 sinnum minna eða „aðeins“ tæplega 873 þúsund dollara fyrir tímabilið. Sektin er því 2,9 prósent af heildarlaunum Gerald Green en aðeins 0,1 prósent af launum Chris Paul.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×