Htin Kyaw sór embættiseið sinn árið 2016 eftir sögulegar kosningar í Mjanmar, eftir að herforingjar höfðu farið með stjórn landsins í áratugi.
Í stjórnartíð Kyaw var forsetaembættið í raun valdalaust og er óhætt að segja að nóbelsverðlaunahafinn og forsætisráðherrann Aung San Suu Kyi hafi farið með tögl og hagldir í landinu. Áður en herinn fór frá völdum tókst honum að gera stjórnarskrárbreytingar sem kváðu á um að fólk sem á börn með mökum af erlendum uppruna geti ekki orðið forsetar í Mjanmar.
Breytingarnar beindust alfarið gegn Suu Kyi og þegar hún komst til valda var því brugðið á það ráð að auka völd forsætisráðherrans á kostnað forsetaembættisins. Þannig gæti hún í raun farið með völd forsetans og farið þannig á svig við stjórnarskrárbreytinguna.
Í tilkynninu forsetaembættisins, sem birt var á Facebook, segir að Htin Kyaw hafi hætt störfum því hann hafi einfaldlega viljað „hvíla sig.“ Fyrrum hershöfðinginn og varaforseti landsins, Myint Swe, mun því taka við embætti forseta þangað til nýr hefur verið valinn.