Ólafía Þórunn og Thomas Bojanowski, unnusti hennar, ætluðu að gifta sig á Íslandi á árinu en Ólafía greindi fyrst frá því í viðtali á LPGA-heimasíðunni.
Hún sagði að þetta hefði verið blásið örlítið upp og að þau hefðu tekið ákvörðun um að fresta brúðkaupinu enda lítill tími sem kylfingar hafa að sumri til á mótaröðinni.
„Við færðum brúðkaupið fram í desember, bæði til að gefa okkur betri tíma til að skipuleggja og það hentar betur dagskránni. Ég fór í þetta viðtal og sagði að við ætluðum kannski að gifta okkur í sumar og það varð strax fyrirsögnin alls staðar,“ sagði Ólafía en fjallað var um þetta á stærstu miðlum Íslands og sagt að brúðkaupið yrði í ágúst.
„Það var smá bjartsýni í okkur að ætla að halda þetta í ágúst en það hentaði vel, þá er mótaröðin í Evrópu og þar er millivika sem gaf okkur tækifæri en þegar við skoðuðum þetta betur sást að þetta yrði erfitt.“
Ólafía reynir að blanda skipulagningu á brúðkaupi inn í lífið á mótaröðinni enda krefjandi fyrir hinn þýska Thomas að skipuleggja brúðkaup á Íslandi.
„Vegna þess að þetta er á Íslandi þarf ég að gera töluvert meira í þessu en ég er að senda marga tölvupósta og hringja símtöl. Við höfum sem betur fer nægan tíma,“ sagði Ólafía sem ætlaði ekki að gifta sig á golfvellinum eins og tíðkast.
„Það er ekkert komið á hreint en ég held að ég vilji ekki hafa svona golfstimpil á brúðkaupinu mínu. Ég ætla bara að fá að gifta mig sem venjuleg manneskja,“ sagði Ólafía hlæjandi að lokum.
Þurftu að fresta brúðkaupinu þar til í desember
