Kjörgengi Einars Birkis Einarssonar í bæjarstjórn verður tekið fyrir í forsetanefnd bæjarins á mánudaginn, en hann mun hafa flutt í Kópavog á miðju kjörtímabilinu en hafa lögheimili skráð hjá ættingjum í Hafnarfirði.
„Ef þetta er rétt, að bæjarfulltrúi í Hafnarfirði sé sannarlega með búsetu í öðru sveitarfélagi, þá þarf bara að ræða það finnst mér,“ segir Margrét og bætir við: „Það er lögfræðingur sem vinnur með forsetanefndinni og ég vil bara fá það upp á yfirborðið hver staðan er og hvort þetta er eðlilegt.“
Samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna er kjörgengi meðal annars háð skilyrði um lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi.
Margrét segist munu ræða við Einar Birki um helgina til að heyra hans sjónarmið í málinu. Ekki náðist í Einar við vinnslu fréttarinnar.

Guðlaug hefur verið í leyfi að undanförnu og hefur varamaður hennar, Borghildur Sturludóttir, tekið sæti í bæjarstjórn í fjarveru hennar en mjög stirt mun vera milli þeirra.
Fyrir liggur að samlyndi innan Bjartrar framtíðar í Hafnarfirði hefur hangið á bláþræði um töluverða hríð. Nú er svo komið að alger klofningur er milli bæjarfulltrúanna tveggja annars vegar og þeirra fulltrúa sem Björt framtíð á í nefndum og ráðum bæjarins hins vegar og fari svo að Einar Birkir þurfi að láta af starfi sem bæjarfulltrúi vegna breyttrar búsetu, er ljóst að meirihlutinn stendur það tæpast af sér.
Haldi meirihlutinn stöðu sinni geta fulltrúar Bjartrar framtíðar í nefndum og ráðum hins vegar búist við því að þurfa að taka pokann sinn enda sitja þau í skjóli bæjarstjórnar Sjálfstæðisflokks og hinna tveggja óháðu fyrrverandi fulltrúa Bjartrar framtíðar. Samkvæmt heimildum blaðsins gæti tíðinda verið að vænta af örlögum þeirra á fundi bæjarstjórnar í næstu viku.