Domino´s-deildarlið Stjörnunnar í körfubolta karla er enn þjálfaralaust eftir að Hrafn Kristjánsson var látinn fara í lok leiktíðar, en Stjörnumenn féllu úr leik í átta liða úrslitum, 3-1, á móti ÍR.
Hrafn þjálfaði liðið í fjögur ár eftir að hann tók við Stjörnunni af Teiti Örlygssyni en nú leita Garðbæingar að nýjum þjálfara og þar á bæ flýta menn sér hægt.
„Við erum að skoða ýmsa hluti. Við erum ekki komnir í formlegar viðræður við neinn en við höfum heyrt lauslega í nokkrum þjálfurum. Við erum bara að skoða markaðinn því það eru hreyfingar í gangi,“ segir Hilmar Júlíusson, formaður körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar.
Garðbæingar vilja eðlilega vanda til verka en nafn Arnars Guðjónssonar, aðstoðarlandsliðsþjálfara Íslands, hefur skotið upp kollinum í umræðunni síðustu daga. Hilmar gefur ekkert upp um það.
„Það er engin pressa á okkur. Við vonumst til að klára þetta innan nokkurra daga en við gerum þetta bara í rólegheitunum og ætlum að vanda okkur,“ segir Hilmar Júlíusson.
