Veðurfræðingurinn sagði að snjónum hefði verið talsvert misskipt á höfuðborgarsvæðinu í morgun. Til að mynda var auð jörð víðs vegar í Kópavogi í morgun á meðan alhvítt var í Reykjavík. Þá hefur snjóað talsvert í Keflavík í morgun og varð meðal annars röskun á flugi vegna hennar.

Hálka er á Hellisheiði en snjóþekja víða í uppsveitum á Suðurlandi. Hálkublettir eru á Reykjanesbraut og krap eða hálkublettir á Suðurnesjum. Hálkublettir eru einnig á Höfuðborgarsvæðinu.
Snjóþekja eða hálka er á vegum á Vesturlandi.
Vestfirðir hafa að miklu leyti sloppið við snjókomu en þó hefur snjóað við Breiðafjörð, á Steingrímsfjarðarheiði og á Ströndum. Þarna er langt komið að hreinsa.
Snjóþekja er á vegum á Norðurlandi austur að Eyjafirði en á Norðaustur- og Austurlandi er víðast autt. Hálka er á Vatnsskarði eystra en hálkublettir á Fjarðarheiði.
Snjóþekja er á Öxi - og frá Djúpavogi er ýmist snjóþekja eða hálkublettir á köflum með Suðausturströndinni.
Veðurhorfur á landinu næstu daga:
Á morgun:
Norðan og norðaustan átt, víða 10-15 m/s á morgun en norðvestan 15-20 austast. Él á norðanverðu landinu, en bjartviðri sunnan heiða. Hiti yfir frostmarki með suður- og vesturströndinni að deginum, annars frost 0 til 8 stig en talsvert næturfrost í innsveitum norðanlands.
Á miðvikudag:
Norðaustan 8-15 og snjókoma eða él norðan- og austantil, en þurrt og bjart að mestu um landið suðvestanvert. Frostlaust syðst að deginum annars frost 2 til 8 stig.
Á fimmtudag:
Minnkandi norðaustan átt, rofar og birtir til norðanlands en áfram léttskýjað sunnantil. Hiti breytist lítið.
Á föstudag og laugardag:
Fremur hæg norðlæg eða breytileg átt. Skýjað með köflum og stöku él norðantil á landinu, en yfirleitt léttskýjað um landið sunnanvert. Kalt í veðri.
Á sunnudag:
Útlit fyrir vaxandi sunnanátt með hlýnandi veðri, en úrkomulítið.