Breska ríkisstjórnin hefur lagt til bann við notkun plaströra og eyrnapinna úr plasti. Alls eru 8,5 milljarðar plaströra notuð í Bretland árlega.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segir plastúrgang vera „eina mestu umhverfisvá samtímans.“
May segir Bretland vera leiðandi í baráttu gegn plastúrgangi, en þegar hefur verið lagt bann á vörur sem innihalda örplast og sérstakt gjald lagt á sölu plastpoka. Árið 2020 verður svo byrjað að taka við plastflöskum gegn skilagjaldi. Bretland stefnir á að vera laust við allan ónauðsynlegan plastúrgang fyrir árið 2042.
Ráðstefna ríkja sem saman mynda Breska samveldið stendur yfir í Lundúnum þessa dagana. May hyggst nýta Samveldisráðstefnuna til að hvetja aðildarríkin 53 til að grípa til aðgerða gegn plastúrgangi í hafi. May segir Breska samveldið einstök samtök og saman búi ríkin yfir ótrúlegri náttúrulegri fjölbreytni.
„Sameinuð getum við komið á raunverulegum breytingum svo að kynslóðir framtíðarinnar geti búið við enn heilnæmara umhverfi en við búum við í dag.“ segir Theresa May.
BBC greinir frá.
Bretland vill banna plaströr og eyrnapinna

Tengdar fréttir

Markvissar aðgerðir nauðsynlegar til að draga úr plastmengun
Íslensk stjórnvöld þurfa að fara í markvissari aðgerðir til að draga úr plastmengun hafsins. Þetta sýna niðurstöður meistaraverkefnis í opinberri stjórnsýslu en þar er mælt með því að stjórnvöld setji reglur sem banni innflutning á vörum sem innihalda örplast.

Bjóða öllum að draga úr plastnotkun í Umbúðalausum apríl: „Þetta getur verið svo einfalt“
Átakið Umbúðalaus apríl stendur nú sem hæst og bjóða aðstandendur átaksins öllum að taka þátt. Þátttaka þarf ekki að vera flókin eða erfið, að sögn skipuleggjanda, en aðalmarkmið átaksins er að fólk taki lítil skref í átt að umhverfisvænni lífsstíl.