Alþingi hefur ákveðið að halda hátíðarfund á Þingvöllum 18. júlí næstkomandi. Þann dag var samningum um fullveldi Íslands lokið með undirritun sambandslaganna sem tóku gildi 1. desember 1918.
Þingfundurinn er hugsaður eins og fundir á Þingvöllum hafa verið á hátíðar- og minningarstundum í sögu þjóðarinnar. Fundurinn verður undir berum himni á sérstaklega byggðum þingpalli. Þingfundurinn er skipulagður fyrir fram þar sem ætlunin er að samþykkja ályktun sem full samstaða er um.
Í tilkynningu frá Alþingi kemur fram að stefnt sé að því að hafa alla umgjörð fundarins þennan dag hóflega og látlausa enda sé ekki um að ræða þjóðhátíð í hefðbundnum skilningi.
