Innlent

Pantaði flugmiða fyrir flóttann og kom með leigubíl til flugstöðvarinnar

Sigurgeir Ingi Þorkelsson Eyvinds skrifar
Sindri Þór yfirgaf landið með spjaldtölvu í annarri hendinni og tösku í hinni.
Sindri Þór yfirgaf landið með spjaldtölvu í annarri hendinni og tösku í hinni. Mynd/Lögreglan á Suðurnesjum
Sindri Þór Stefánsson pantaði flugmiða klukkustund áður en hann strauk af Sogni í gær. Flóttinn átti sér stað um eittleytið en Sindri var síðan kominn að Leifsstöð að ganga fjögur um nóttina. Þetta staðfestir Gunnar Schram, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum, í samtali við Vísi.

Sindri kom að flugstöðinni með leigubíl, gráum skutbíl frá framleiðandanum Skoda. Lögreglu hefur ekki tekist að ná tali af bílstjóranum og er aðkoma hans að málinu því ekki þekkt sem stendur. Þegar Sindri var kominn á flugstöðina hafði hann með sér handfarangurstösku og spjaldtölvu.

Sindri Þór yfirgaf landið á áttunda tímanum í gærmorgun með flugi Icelandair til Stokkhólms. Ekkert er vitað um ferðir Sindra frá því að vélin lenti heilu og höldnu á Arlanda flugvelli.

Fram kemur í frétt RÚV að lögreglan hafi í dag yfirheyrt fjóra vegna málsins og þar af hafi tveir stöðu sakbornings. Ljóst þykir að Sindri hafi notið einhverrar aðstoðar við flóttann.

 

Sindri Þór Stefánsson eftir komuna á Leifsstöð.Mynd / Lögreglan á Suðurnesjum

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×