Erlent

Nafnlausi skjólstæðingurinn reyndist landsfrægur sjónvarpsmaður

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sjónvarpsmaðurinn Sean Hannity og lögmaðurinn Michael Cohen á góðri stund.
Sjónvarpsmaðurinn Sean Hannity og lögmaðurinn Michael Cohen á góðri stund. Twitter
Sjónvarpsmaðurinn Sean Hannity, einn allra dyggasti stuðningsmaður Bandaríkjaforseta í röðum fjölmiðlamanna vestanhafs, er hinn svokallaði „þriðji skjólstæðingur“ Michael Cohen.

Cohen þessi er jafnframt lögmaður Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, og hefur verið í eldlínunni undanfarnar vikur - ekki síst vegna 130 þúsund dala greiðslu sem hann innti af hendi til kaupa þögn klámmyndastjörnu sem sængaði hjá Trump. Talið er að greiðslan brjóti gegn lögum um fjármögnun framboða.

Fulltrúar alríkislögreglu Bandaríkjanna gerðu húsleit hjá Cohen fyrr í þessum mánuði. Þeir telja að lögmaðurinn búi yfir mikilvægum upplýsingum sem kunna að varða forsetakosningarnar 2016 og meint tengsl framboðs Trump við Rússa.

Sean Hannity er einn allra dyggasti stuðningsmaður Bandaríkjaforseta.Vísir/getty
Fyrrnefndur Hannity starfar á Fox-sjónvarpsstöðinni og hefur varið Bandríkjaforseta með kjafti og klóm allt frá því að hann tók við embætti. Lýsti hann meðal annars húsleit alríkislögreglunnar sem árás á forsetann og að hún græfi undan öllu því sem Bandaríkin stæðu fyrir.

Cohen mætti fyrir rétt í New York í gær og sagði að hann hafi einungis veitt þremur einstaklingum lagalega ráðgjöf á síðastliðnu ári. Einn þeirra væri forsetinn og annar væri áhrifamaður í Repúblikanaflokknum. Hann neitaði hins vegar að gefa upp nafn þess þriðja. Dómarinn í málinu, Kimba Wood, tók það hins vegar ekki í mál og krafðist þess að Cohen gæfi upp nafn þriðja skjólstæðings síns.

Kom þá upp úr krafsinu að um sjónvarpsmanninn Hannity væri að ræða. Hann hefur áður neitað að tengjast lögmanni forsetans með nokkrum hætti og þvertekur fyrir að hann sé skjólstæðingur hans. Hannity segist aðeins einu sinni hafa beðið Cohen um lagalegar ráðleggingar en aldrei ráðið hann til starfa. Á samfélagsmiðlum ítrekar Hannity að hann hafi ekkert með málin sem nú eru í deiglunni að gera. Tengsl hans við Cohen séu „ekkert stórmál.“

Alríkislögreglumennirnir lögðu hald á trúnaðarupplýsingar um það sem farið hefur á milli Cohen og skjólstæðinga hans. Lögmaðurinn barðist hatrammlega gegn því að þeir fengju aðgang að þessum upplýsingum en Wood dómari heimilaði haldlagninguna.

Ekki er vitað hvers vegna Hannity leitaði ráðgjafar hjá Cohen.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×