Innlent

Losun 28% meiri en árið 1990

Sigurgeir Ingi Þorkelsson Eyvinds skrifar
Alls koma 38% af losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum frá málmiðnaði.
Alls koma 38% af losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum frá málmiðnaði. VISIR/GVA
Umhverfisstofnun birti í dag niðurstöður úr skýrslu sem sýnir að kolefnislosun Íslands jókst um 28% frá árinu 1990 fram til ársins 2016. Gerð skýrslunnar er hluti af þeim skuldbindingum sem Ísland hefur tekið á sig með fullgildingu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, sem kenndur er við París.

Parísarsamningurinn kveður á um að ríki þurfi að minnka losun sína á gróðurhúsalofttegundum um 40% miðað við árið 1990. Þarf því markmiði að vera náð fyrir árið 2030.

Í skýrslunni kemur fram að heildarlosun Íslands hefur aukist um rúmlega 28% frá árinu 1990. Losunin minnkaði þó um 2% milli áranna 2015 og 2016.

„Það var mjög ánægjulegt að sjá að þrátt fyrir aukningu frá 1990 þá erum við að sjá tveggja prósenta minnkun á milli 2015 og 2016. Það verður hins vegar að koma í ljós hvernig það heldur áfram. Aðgerðir sem ráðist verður í núna skila sér seinna þannig að það er mikil áskorun,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, í kvöldfréttum RÚV.

Þrátt fyrir að heildarlosun milli ára minnki þá jókst losun frá ákveðnum uppsprettum. Til að mynda jókst losun frá vegasamgöngum um 9%.

Þá segir ennfremur í skýrslunni að stærstu uppsprettur gróðurhúsalofttegunda á Íslandi séu málmiðnaður (38%), vegasamgöngur (19,5%), fiskiskip (11%), iðragerjun jórturdýra (6,6%) og urðun úrgangs (4,6%).

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×