Walker, sem er 31 árs gamall, er enn skráður í KR og löglegur með liðinu enda lék hann með B-liði KR í bikarkeppninni fyrr í vetur.
„Það er gott að eiga mikið af KR-ingum út í hinum stóra heimi,“ segir Böðvar Guðjónsson, varaformaður körfuknattleiksdeildar KR, en KR-ingar stefna á að tefla Walker fram í fjórða leik liðsins gegn Haukum í kvöld. Walker verður eflaust þreyttur en mun samt spila eitthvað.
Meiðsli Jóns Arnórs Stefánssonar er aðalástæðan fyrir því að KR-ingar hóa í sinn gamla félaga. Jón hefur lítið sem ekkert getað beitt sér í síðustu leikjum og staðan á honum lofar ekki góðu fyrir framhaldið.
Í bikarleiknum gegn Blikum í vetur þá var Walker með 42 stig, 7 þrista og 6 stoðsendingar í 100-108 tapi á móti Breiðabliki í bikarnum.

Frammistaða Marcus Walker í úrslitakeppninni 2011 var mögnuð. Hann skoraði 30,2 stig að meðaltali og hækkaði meðalskor sitt um sjö stig frá því í deildarkeppninni (23,2).
Marcus hitti úr 49 prósent þriggja stiga skota sinna í úrslitakeppninni fyrir sjö árum og setti niður 3,5 þrista að meðaltali í leik. Hann var einnig með 4,0 stoðsendingar og 2,5 stolna bolta að meðaltali í leik.
Tveir leikmenn KR-liðsins í dag léku með Marcus Íslandsmeistaravorið 2011 en það eru þeir Brynjar Þór Björnsson og Pavel Ermolinskij. Finnur Atli Magnússon, sem er leikmaður Hauka í dag, var einnig með KR í þessari úrslitakeppni sem og Matthías Orri Sigurðarson sem leikur nú lykilhlutverk með ÍR-liðinu.
Rimma KR og Hauka hefur verið frábær hingað til og koma Walker til KR-inga á aðeins eftir að gera rimmu liðanna enn meira spennandi.
KR-ingar ætla að byrja upphitun fyrir leikinn snemma í dag. Kveikt verður á grillunum klukkan 17.00 og stuðningsmenn geta því byrjað að þjappa sér saman snemma.
Miðasala á leikinn er hafin á netinu og má kaupa miða á leikinn hér.