Tillaga þess efnis að sjö svæði og lóðir í Reykjavík verði ætluð uppbyggingu fyrir hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur var samþykkt í borgarráði Reykjavíkurborgar í gær. Sérstak matsnefnd verður sett á laggirnar til þess að leggja mat á umsóknir um lóðir á svæðunum.
Um er að ræða lóðir eða svæði í Úlfarsárdal, Gufunesi, Bryggjuhverfi, Elliðarvogi/Ártúnshöfða, á Veðurstofureit, við Stýrimannaskólann og í Skerjafirði. Í upphafi árs efndi Reykjavíkurborg auglýsti borgin eftir hugmyndum til þess að auka framboð af hagkvæmu húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur.
Tæplega 70 hugmyndir bárust en tillagan felur í sér að boðnar verði út sjö lóðir á áðurnefndum svæðum.
Gerir borgin ráð fyrir góðri þáttöku þegar lóðirnar verða boðnar út en í greinargerð með tillögunni segir að stefnt sé að því að þær íbúðir sem byggðar verði á þessum lóðum verði „varanlega á hagstæðum kjörum fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur eða aðra hópa sem búa yfir litlu eiginfé til kaupa á fasteign“.
Á einnig að tryggja að val á kaupendum eða leigjendum verði með gagnsæjum hætti en í tillögunni segir að reikna megi með að margir bjóðendur verði um hverja íbúð.
Þrír fulltrúar borgarinnar og óháður fulltrúi munu fara yfir umsóknir á lóðum og leggja mat á þær samkvæmt sérstöku matsblaði. Horft verður til ýmissa þátta við úthlutun lóðanna en ef „ hugmynd og útfærsla sem boðin er þykir skara fram úr, er einstök á einhvern hátt eða fær langflest stig verður samið við viðkomandi bjóðanda um þá lóð.“
Sjö lóðir í borginni eyrnamerktar ungu fólki
Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
