Innlent

Eigið fé ríkasta eina prósentsins 612 milljarðar króna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sé litið til eigin fjár ríkasta fimm prósents landsmanna þá nam það í árslok 2016 1.388,3 milljörðum króna og var 43,5 prósent af heildar eigin fé landsmanna.
Sé litið til eigin fjár ríkasta fimm prósents landsmanna þá nam það í árslok 2016 1.388,3 milljörðum króna og var 43,5 prósent af heildar eigin fé landsmanna. Vísir/Stefán
Eigið fé þess eins prósents landsmanna sem mestar eignir átti í lok árs 2016 nam 612,6 milljörðum króna. Þetta kemur fram svari Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, við fyrirspurn Loga Einarssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, en í svarinu segir að um 2.180 fjölskyldur séu á bak við ríkasta eina prósentið.

Hlutfall eigin fjár þessa hóps af heildar eigin fé landsmanna var 19,2 prósent en sé litið til eigin fjár ríkasta fimm prósents landsmanna þá nam það í árslok 2016 1.388,3 milljörðum króna og var 43,5 prósent af heildar eigin fé landsmanna. Á bak við ríkustu fimm prósentin eru um 10.900 fjölskyldur.

Þegar síðan er horft á eigið fé ríkasta 0,1 prósents landsmanna, sem telur 218 fjölskyldur, nam það 201,3 milljörðum króna í árslok 2016. Var það 6,3 prósent af heildar eigin fé landsmanna.

Heildareignir ríkasta fimm prósentsins 1.578,3 milljarðar króna

Fyrirspurn Loga var ítarleg og er svarið eftir því. Þannig spurði hann um sambærilegar tölur fyrir öll ár aftur til ársins 1997 en til að mynda var hlutfall eigin fjár ríkasta fimm prósents landsmanna af öllu eigin fé 37,6 prósent, miðað við 43,5 prósent 2016.



Einnig var spurt um heildareignir þessara ríkustu hópa landsins við árslok 2016

„Heildareignir þeirra 5% landsmanna sem mestar eignir áttu við lok árs 2016 samkvæmt skattframtölum voru 1.578,3 milljarðar kr. og hlutfall heildareigna þeirra af heildareignum allra landsmanna var 31,8%. 

Heildareignir þess 1% landsmanna sem mestar eignir átti við lok árs 2016 voru 654,1 milljarðar kr. og hlutfall heildareignanna af heildareignum allra landsmanna var 13,2%. 

Heildareignir þess 0,1% landsmanna sem mestar eignir átti við lok árs 2016 voru 208,3 milljarðar kr. og hlutfall heildareignanna af heildareignum allra landsmanna var 4,2%,“ segir í svari fjármálaráðherra en það má sjá í heild sinni hér á vef Alþingis.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×