Ferðaþjónusta hefur vaxið hratt í að verða sú atvinnugrein sem er stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar og áfram vex ferðaþjónusta. Skýrsla ferðamálaráðherra um þolmörk ferðamennsku sýnir fram á að fjölmargir ferðamannastaðir eru fullmettir og liggja undir skemmdum og mikilvægt sé að dreifa ferðamönnum betur um landið. Á sama tíma eru fjárfestingar í ferðaþjónustu illa nýttar í mestri fjarlægð frá Keflavíkurflugvelli.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar stendur að marka eigi langtímastefna um ferðaþjónustu í samvinnu við hagsmunaaðila með sjálfbærni að leiðarljósi og að aukin dreifing ferðamanna um landið sé mikilvæg með hliðsjón af náttúruvernd og byggðasjónarmiðum.

„Stjórnvöld geta með aðgerðum eða aðgerðaleysi haft veruleg áhrif á ferðahegðun og þar með dreifingu ferðamanna um land allt,“ sagði Líneik Anna. „Ein hindrunin er hærra verð á eldsneyti á millilandaflugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum en í Keflavík. Flutningsjöfnun á eldsneyti hefur ekki náð til flugvélaeldsneytis. Þetta skekkir samkeppnisstöðu vallanna og vinnur gegn því að flugfélög komi á fót reglubundnu flugi til annarra staða á Íslandi en til Keflavíkur.“
Þórdís Kolbrún sagði það ekki vera svo að hið opinbera gæti dreift ferðamönnum með handafli en er ósammála því að lítið eða ekkert hafi verið gert hjá hinu opinbera í því að dreifa ferðamönnum um landið. „Allt sem stjórnvöld eru að gera má með beinum eða óbeinum hætti tengja við það markmið að dreifa ferðamönnum betur um landið.“
„Við höfum viðurkennt staðreyndir og það er búið að greina allt í drasl,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í ræðu sinni. „Við vitum hvað þarf að gera. Nú þarf ráðherra að sýna hvað í henni býr og drífa sig í þessi verkefni.“