Samkvæmt heimildum Sky á Ítalíu þá hefur ítalska knattspyrnusambandið boðið Carlo Ancelotti starf landsliðsþjálfara.
Ancelotti hefur verið atvinnulaus síðan hann var rekinn frá Bayern í september. Þá hafði Bayern tapað 3-0 fyrir PSG í Meistaradeildinni.
Ancelotti fundaði með stjórn ítalska knattspyrnusambandsins í gær og ku hafa gengið af þeim fundi með samningstilboð í töskunni.
Ítalir hafa verið án þjálfara síðan Gian Piero Ventura var rekinn í nóvember. Ítölum tókst ekki að tryggja sér sæti á HM undir stjórn Ventura.
Hermt er að Ancelotti hafi verið boðinn tveggja ára samningur. Eina sem sagt er geta staðið í Ancelotti er að ítalska sambandið býður ekki sömu laun og stóru liðin í Evrópu.
