Guðbjörg segir líf hennar hafa snúist um dansinn en hvaðan kom henni áhuginn upphaflega? „Ég held bara að foreldrum mínum hafi þótt gaman að setja einkadótturina í ballett. Ég byrjaði þegar ég var sex ára í Ballettskóla Sigríðar Ármann og dansinn hefur fylgt mér síðan.
Ertu þá ekki rosa liðug?
„Ég veit það nú ekki,“ svarar hún glaðlega.
„Þegar maður er að verða sjötíu og tveggja ára fer maður kannski aðeins að stirðna. En ég kenni í skólanum og dansa með börnunum, þá er ég auðvitað alltaf á hreyfingu.“Í ballettskóla Þjóðleikhússins kveðst Guðbjörg hafa tekið þátt í mörgum danssýningum, barnaleikritum, óperum og leiksýningum. „En ég starfaði aldrei sem dansari, heldur fór strax út í kennslu, hugur minn stóð alltaf til þess. Minn kennsluferill hófst í Listdansskóla Þjóðleikhússins, ég fór síðan eitt ár til Sigríðar Ármann og kenndi svo mörg ár við Dansskóla Eddu Scheving áður en ég stofnaði minn eigin skóla árið 1982.“
Fyrstu árin kveðst hún hafa verið með skólann í kjallara Sundlaugar Seltjarnarness en síðar fært hann í sal undir Hagkaupi á Eiðistorgi og aðsóknin hafi alltaf verið næg. „Ég hef aldrei sóst eftir því að vera með sérstaklega stóran skóla, heldur lagt meira upp úr að þekkja öll börnin og hafa aðstæðurnar notalegar.“
Nemendur eru á öllum aldri. „Forskólabörnin byrja þriggja ára og eru til sex ára, svo tekur við framhaldsdeild og þar eru nemendur allt fram yfir tvítugt. Alltaf eru tvær stórar sýningar á ári, jólasýningar á Eiðistorginu sjálfu og vorsýningarnar í Borgarleikhúsinu.“ En hvað ætlar Guðbjörg að taka sér fyrir hendur nú þegar skólanum sleppir? „O, ég veit ekki. Þetta verður eitthvað einkennilegt til að byrja með. Hugurinn verður tengdur ballettinum eitthvað áfram. En kannski gef ég mér tíma til að setjast niður einhvern tíma og lesa bók um miðjan dag.“