Erlent

Hvetja Trump til að rifta ekki kjarnorkusamkomulaginu

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/AFP
Bandamenn Bandaríkjanna hafa að undanförnu þrýst á Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, að rifta ekki kjarnorkusamkomulaginu við Íran. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, er nú staddur í Bandaríkjunum þar sem hann ítrekaði við Trump að halda samningnum virkum. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, mun einnig nefna samkomulagið við Trump á fundi þeirra á föstudaginn.

Trump hefur ítrekað hótað því að ef bandamenn Bandaríkjanna í Evrópu lagi ekki „hræðilega galla“ í samkomulaginu fyrir 12. maí muni hann beita viðskiptaþvingunum gegn Íran aftur. Hann hefur sömuleiðis sakað Íran um að styjða við bakið á hryðjuverkasamtökum og að brjóta ítrekað gegn samkomulaginu.

Bandalagið var gert á milli Íran, Bandaríkjanna, Kína, Rússlands, Bretlands, Frakklands og Þýskalands og var því ætlað að binda enda á kjarnorkuvopnaáætlun Íran. Í skiptum fyrir að þvingunum og öðrum refsiaðgerðum yrði aflétt samþykktu yfirvöld Íran að hætta við þróun kjarnorkuvopna og hleypa eftirlitsaðilum í landið.

Samkvæmt umfjöllun Reuters eru helst þrjú atriði sem Trump hefur sett út á. Hann segir samkomulagið ekki koma niður á þróun Írana á langdrægum eldflaugum, að eftirlitsaðilar fái ekki nægilega greiðan aðgang í Íran og að Íran geti að einhverju leyti byrjað að þróa kjarnorkuvopn aftur eftir tíu ár.

Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, hefur slegið á svipaða strengi og segir mikilvægt að samkomulagið verði ekki fellt niður.

Yfirvöld Íran hafa sagt að þau muni framfylgja samkomulaginu svo lengi sem að allir geri það. Muni Trump slíta Bandaríkin frá því muni Íranar „rífa samkomulagið,“ eins og Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Íran, orðaði það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×