Barcelona er spænskur bikarmeistari í fótbolta fjórða árið í röð eftir stórsigur á Sevilla í úrslitaleiknum.
Barcelona var með yfirhöndina strax frá fyrstu mínútu og komust yfir á 14. mínútu leiksins með marki frá Luis Suarez. Jasper Cillessen sparkaði frá marki Barcelona og fjórum snertingum síðar lá boltinn í marknetinu hinu megin á vellinum eftir samspil Philippe Coutinho og Suarez.
Sevilla átti sitt fyrsta skot á markrammann á 30. mínútu en mínútu síðar var staðan orðin 2-0 fyrir Barcelona. Lionel Messi skoraði þá eftir frábæra hælspyrnu frá Jordi Alba að loknum undirbúningi Andres Iniesta. Með markinu varð Messi aðeins annar leikmaður í sögunni til að skora mark í fimm úrslitaleikjum spænska bikarsins.
Luis Suarez bætti við þriðja markinu á fertugustu mínútu eftir þríhyrningsspil við Messi. Staðan 3-0 í hálfleik og líklegast byrjað að grafa nafn Barcelona á bikarinn, það hefði þurft kraftaverk til að bjarga Sevilla frá tapi.
Hafi stuðningsmenn Sevilla haft einhverja von um að leikmennirnir gætu komið til baka í seinni hálfleik var hún fljótt slökkt með marki frá Iniesta á 52. mínútu.
Barcelona fékk vítaspyrnu á 69. mínútu sem Philippe Couthinho setti í marknetið. Fimm marka forysta og leikurinn úti. Verðskuldaður sigur Barcelona eftir framúrskarandi frammistöðu.
Þetta er í þrítugasta skipti sem Barcelona fagnar spænska bikarmeistaratitlinum.
Barcelona bikarmeistari í þrítugasta skipti
Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar

Mest lesið
Fleiri fréttir
