Í mynd sem fylgdi fréttatilkynningu standa tveir leikmenn félagsins bak við formann KSÍ, Guðna Bergsson með áfengisauglýsinguna framan á búningnum. Árni Guðmundsson, formaður Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum, segir að þetta sé klárt brot á 20. grein áfengislaga og er lítið skemmt.
„Þetta er einstaklega óviðeigandi og ósmekklegt sem og brot á áfengislögum. Þetta er í blóra við öll helstu markmið íþróttahreyfingarinnar og alls þess æskulýðsstarfs sem þar fer fram. Með öðrum orðum algerlega óboðlegt,“ segir hann.

„Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum skora á KSÍ að gera gangskör í þessum efnum og hafa í hvívetna málstað barna og gildi hreyfingarinnar í öndvegi. Ungt knattspyrnufólk á einfaldlega betra skilið en svona vitleysu,“ segir Árni.
Hjá KSÍ fengust þau svör að sambandið ætlaði að skoða málið.
20. grein áfengislaga
Hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar.Enn fremur er bannað að sýna neyslu eða hvers konar aðra meðferð áfengis í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu. Með auglýsingu er átt við hvers konar tilkynningar til almennings vegna markaðssetningar þar sem sýndar eru í máli eða myndum áfengistegundir eða atriði tengd áfengisneyslu, svo sem áfengisvöruheiti eða auðkenni, eftirlíkingar af áfengisvarningi, spjöld eða annar svipaður búnaður, útstillingar, dreifing prentaðs máls og vörusýnishorna og þess háttar.
Bannið tekur með sama hætti til auglýsinga sem eingöngu fela í sér firmanafn og/eða firmamerki áfengisframleiðanda. Þó er framleiðanda sem auk áfengis framleiðir aðrar drykkjarvörur heimilt að nota firmanafn eða merki í tengslum við auglýsingu þeirra drykkja, enda megi augljóst vera að um óáfenga drykki sé að ræða í skilningi laganna og ekki vísað til hinnar áfengu framleiðslu.
Undanþegið banni við áfengisauglýsingum er
- Auglýsingar á erlendum tungumálum í erlendum prentritum sem flutt eru til landsins, nema megintilgangur ritsins eða innflutningsins sé að auglýsa áfengi.
- Auðkenni með firmanafni og/ eða firmamerki á venjulegum búnaði til áfengisveitinga á veitingastað þar sem áfengisveitingar eru heimilaðar.
- Auðkenni með firmanafni og/ eða firmamerki á flutningatækjum áfengisframleiðanda, vöruumbúðum, bréfsefni eða öðru sem beinlínis tengist starfsemi hans.