Innlent

Fíkniefnasalar rændu viðskiptavin sinn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lögreglan aðstoðaði fíkniefnakaupanda í Breiðholti í gærkvöldi.
Lögreglan aðstoðaði fíkniefnakaupanda í Breiðholti í gærkvöldi. Vísir/gva
Hann hafði ekki heppnina með sér, fíkniefnakaupandinn sem hugðist endurnýja birgðir sínar í gærkvöldi. Í skeyti lögreglunnar kemur fram að maðurinn hafði mælt sér mót við fíkniefnasala í Breiðholti á áttunda tímanum í gærkvöldi.

Þegar hann kom til fundarins kárnaði þó gamanið fljótt þegar sölumennirnir rifu upp hníf. Þeir eru sagðir hafa ógnað manninum og skipað honum að láta sig hafa alla peningana sem maðurinn hafði á sér. Því næst óku þeir burt.

Ekki fylgir sögunni hver eftirleikurinn verður, hvort málið sé til rannsóknar, hvort vitað sé hverjir fíkniefnasalarnir eru eða hversu samvinnuþýður kaupandinn var.

Það var svo á níunda tímanum í gærkvöldi sem lögreglan fékk tilkynningu um konu sem var ofurölvi á Laugavegi. Þegar lögreglumenn höfðu afskipti af konunni brást hún ókvæða við og er hún sögð hafa slegist við lögreglumennina. Konan var því handtekin á staðnum og flutt í fangaklefa á Hverfisgötu, þar sem hún hefur mátt sofa úr sér vímuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×