Oddvitarnir tveir voru á meðal gesta í Sprengisandi í dag þar sem framhaldið var rætt. Sjálfstæðisflokkurinn vann kosningasigur með 30,8% atkvæða og átta borgarfulltrúa. Samfylkingin tapar rúmlega sex prósentustigum frá síðustu kosningum, en flokkurinn hlaut 25,9% atkvæða og þar með sjö borgarfulltrúa.
Nóttin var rússíbani
Dagur segist hafa fundið fyrir miklum meðbyr undir lok kosningabaráttunnar og benti á að fylgi flokksins hafi verið um 13% í skoðanakönnunum fyrr í vetur. Nóttin hafi verið æsispennandi og að margir möguleikar séu á borðinu.Hann segir næstu skref vera að fara í viðræður við aðra flokka og að línurnar mun skýrast á næstu dögum. Hann sé bjartsýnn um að áherslumál núverandi meirihluta fái áfram brautargengi og niðurstaða kosninganna bendi til þess að almenningur sé sammála þeirri framtíðarsýn. Hann útiloki hins vegar samstarf við Sjálfstæðisflokkinn.
„Mér finnst það svolítið kristallast að við deilum framtíðarsýn með mörgum flokkum sem buðu fram í borgarstjórn“ sagði Dagur og að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki á meðal þeirra. Samfylkingin talaði fyrir grænni borg, þéttari byggð og bættum almenningssamgöngum og Eyþór hafi tekið afstöðu gegn þeim málum.
Úrslitin skýrt ákall um breytingar
Eyþór var að vonum sáttur með úrslitin og segir þau vera ákall um breytingar. Núverandi borgarstjórn hafi verið hafnað að kjósendum: „Skilaboð kjósenda gætu ekki verið skýrari. Þessi borgarstjórn sem nú er á ekki að eiga framhaldslíf“Hann segir Sjálfstæðisflokkinn vera þann flokk sem hafi talað hvað mest fyrir breytingum og fylgi þeirra sýni fram á að það sé vilji kjósenda. Það sé siðferðisleg skylda stjórnmálamanna að hlusta á niðurstöðurnar og hann sé tilbúinn til þess að leiða breytingarstjórn sem taki á vanda borgarinnar.
„Niðurstaða fólksins í borginni var afdráttarlaus, það voru breytingar.”