„Svo var ég að vinna með konu sem fór þangað í frí og hún kom til baka með alls konar sögur af söngstundunum hjá Harry og allir að hittast á Klörubar og fleiru. Þá einhvern veginn fékk ég þessa flugu í höfuðið að þetta væri tilvalið efni til að gera um það heimildarmynd,“ segir Marta en á eyjunum eru um eitt þúsund Íslendingar búsettir, sumir allt árið en aðrir hluta af því. Hún segir að þarna sé því stemming eins og í þorpi úti á landi.
Marta hafði þó aldrei gert heimildarmynd áður þannig að hún leitaði til Magneu Bjarkar Valdimarsdóttur, vinkonu sinnar, sem hefur reynslu úr heimildarmyndagerð, gerði meðal annars heimildarmynd um Hverfisgötuna. Magneu fannst hugmyndin ekki bara algjörlega frábær heldur var hún fyrir einskæra tilviljun nýbúin að panta sér far til Kanaríeyja.

Myndin var frumsýnd á Skjaldborgarhátíðinni núna fyrir viku og segir Marta að hún hafi hlotið góðar viðtökur. Í myndinni má finna skala tilfinninga því að þarna er auðvitað sól og sumar og fólk að njóta lífsins, en líka öryrkjar og eldri borgarar sem hafa ekki náð að lifa á ellilífeyrinum og örorkubótunum. Einnig er litið inn á Framsóknarfund.
„Við fjármögnuðum verkefnið á Karolina Fund fyrir ári og fengum enga aðra styrki. Myndin verður sýnd núna á sunnudaginn og það kostar þúsund krónur inn en það fer allt í það að borga niður kostnað við eftirvinnslu myndarinnar.“

„Það er gaman að segja frá því að á Skjaldborg var sýnd mynd sem heitir Litla Moskva og fjallar um Neskaupstað og ítök sósíalista þar. Þar kemur fyrir karakterinn Gvendur Stalín og það er gaman að því að það hangir mynd af þessum manni á Nonnabar á Kanarí.“
Kanarí verður sýnd í Bíói Paradís klukkan hálf sex á sunnudaginn og kostar þúsund krónur inn.