Körfubolti

Celtics tók forystuna á ný

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jayson Tatum er að gera vel á sínu fyrsta ári
Jayson Tatum er að gera vel á sínu fyrsta ári vísir/getty
Boston Celtics endurheimti forystuna í úrslitum austurdeildarinnar í nótt með 96-83 sigri á Cleveland á heimavelli.

LeBron James hefur verið framúrskarandi í þessu einvígi til þessa og oftar en ekki skorað í kringum 40 stig. Það sást hins vegar á honum í leiknum í nótt að hann var þreyttur og náði vörn Celtic að halda honum í aðeins tveimur stigum í fjórða leikhluta. Hann skoraði í heildina 26 stig og tók 10 fráköst en hann var með sex tapaða bolta.

Nýliðinn Jayson Tatum hefur látið ljós sitt skína í úrslitakeppninni. Hann skoraði 24 stig fyrir Boston og náði þar með níunda leiknum í þessari úrslitakeppni þar sem hann fer yfir 20 stig.





„Ég nýt þess að spila í þessum stóru leikjum. Þá skemmti ég mér mest. Við erum einum sigri frá því að komast í úrslitin, úrslitakeppnin dregur fram allt það besta í mönnum,“ sagði Tatum eftir sigurinn. Hann var einnig með sjö fráköst, fjórar stoðsendingar og stal fjórum boltum.

Celtics náði tveggja stafa forystu í fyrsta leikhluta og hélt henni út leikinn. Cavaliers náði að skora níu stig í röð þegar Boston fór fjórar mínútur án þess að skora í fjórða leikhluta og minnkaði muninn í 83-71. Þá kom Al Horford boltanum í körfuna eftir samspil við Terry Rozier og braut ísinn og Cleveland komst ekki nær í leiknum.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×