Embættismenn í Suður-Kóreu segjast 99,9 prósent vissir um að fyrirhugaður fundur Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, verði haldinn. Trump segir þó mögulegt að fundinum verði frestað. Til stendur að halda fundinn í Singapúr þann 12. júní.
Yfirvöld Norður-Kóreu hafa á undanförnum dögum gefið í skyn að ekkert verði af fundinum ef Bandaríkin og Suður-Kórea hætti ekki við sameiginlega heræfingu og sömuleiðis hafa Norður-Kóreumenn lýst sig verulega andvíga því að láta kjarnorkuvopn sín af hendi og brugðust þeir reiðir við þeirri tillögu þjóðaröryggisráðgjafa Trump að Líbýuaðferðin svokallaða yrði farin í kjarnorkuafvopnun Norður-Kóreu.
Sjá einnig: Trump reynir að lægja öldurnar
Chung Eui-yong, yfirmaður þjóðaröryggisráðs Suður-Kóreu, sagði við fjölmiðla í dag að þrátt fyrir að þeir væru vissir um að af fundinum yrði, væri verið að skoða alla möguleika. Moon Jae-in, forseti Suður Kóreu, mun funda með Trump í Washington DC í dag.
Fregnir hafa borist af því í Bandaríkjunum að Trump væri að velta vöngum yfir því hvort að fundur hans og Kim væri þess virði. Chung sagði þó að ekkert hefði borið á slíkum efasemdum í samtölum Trump og Moon.
Þegar Trump tók á móti Moon sagði hann, samkvæmt frétt BBC, að mögulega yrði fundinum frestað og jafnvel að miklar líkur væru á því að hann yrði ekki í júní.
Suður-Kóreumenn segjast vissir um að af fundinum verði

Tengdar fréttir

Vilja konurnar heim
Norðurkóresk yfirvöld saka Suður-Kóreu um að hafa rænt tólf norðurkóreskum konum árið 2016.

Leggja línurnar fyrir Singapúr
Forseti Suður-Kóreu, Moon Jae-in, fundar með Donald Trump Bandaríkjaforseta í dag.

Hætta við fund með Suður-Kóreu og hóta því að aflýsa Bandaríkjafundi
Yfirvöld í Norður-Kóreu segja sameiginlegar heræfingar Suður-Kóreu og Bandaríkjanna ástæðu að baki ákvörðun sinni.

Ekki í fyrsta sinn sem afvopnun er lofað
Norður-Kórea lofar nú að losa sig við kjarnorkuvopnin. Ríkið segist ætla að hætta að vinna að kjarnorkuáætlun sinni. Þótt horfur nú séu góðar sýnir sagan að ríkið hefur áður gert samninga um slíkt og ekki staðið við þá.