Mikil blóðtaka fyrir Íslandsmeistara KR en að sama skapi gríðarlegur hvalreki fyrir Stólana.
„Það er furðulegt að hugsa til þess að ég verði ekki í svarthvítu næsta vetur. Á sama tíma er þetta mikið ævintýri fyrir mig og fjölskylduna að fara norður og upplifa nýja hluti,“ segir Brynjar en eiginkona hans var að fá vinnu sem læknir í Skagafirðinum og því ákvað fjölskyldan að flytja norður.
„Það er svona rúm vika síðan við ákváðum að kýla á þetta. Skoðuðum allt fyrir norðan um síðustu helgi. Þetta er næsta skref á ferlinum hjá frúnni og okkur líst vel á þetta. Ég er mjög spenntur fyrir þessu. Ég sagði við KR-ingana að það kæmi ekki til greina að fara í annað lið á höfuðborgarsvæðinu eða næsta nágrenni. Það væri bara KR eða Tindastóll í stöðunni. Okkur hlakkar til að flytja út á land og prófa hvernig er að búa út á landi.“

„Það verður sérstök tilfinning. Ég hugsaði að það væri svolítið skrítið að spila fyrir fólk sem hefur látið mann heyra það í mörg ár og finnst ég vera óþolandi. Ég er búinn að ræða við fólk á Króknum og það hefur ekki neinar áhyggjur af öðru en að það snúist á sveif með mér þegar ég er í þeirra liði. Ef árangur næst líka og tala ekki um ef við vinnum þennan stóra þá er þetta fljótt að gleymast. Vonandi fer maður í sögubækurnar sem ljúfmenni þarna fyrir norðan,“ segir Brynjar léttur en hann á ekki von á neinu öðru en góðum móttökum er hann mætir aftur í DHL-höllina.
„Ég býst við frábærum móttökum. Ég á ekki von á öðru en að það verði klappað fyrir mér. Ég get lítið meira gert sem leikmaður fyrir KR. Búinn að vinna alla titla og er einnig leikja- og stigahæsti leikmaður félagsins. Ég hef náð öllum markmiðum mínum með KR.“
Brynjar er þegar farinn að leiða hugann að þeirri sérstöku stund er hann kemur í KR-heimilið sem andstæðingur KR.
„Það verður mjög skrítið. Ég er búinn að vera þarna síðan ég var fimm ára og öll mín fjölskylda er KR-ingar. Hjartað verður alltaf svarthvítt þó maður skipti um lið.“