Portúgalinn var fenginn til að spá fyrir um úrslit riðlanna og stilla upp í 16 liða úrslitin í skemmtilegu innslagi fyrir ESPN í Bretlandi og þar sendir hann Argentínu og Nígeríu áfram úr D-riðli.
„Ég held að litli kallinn vinni riðilinn,“ segir hann um Lionel Messi og Argentínu og stillir þeim upp í leik á móti Ástralíu í 16 liða úrslitum en hann hefur meiri trú á Áströlum heldur en Danmörku og Perú sem verða, samkvæmt honum, eftir í C-riðli.
„Þetta er erfitt,“ segir Mourinho er hann hugsar sig um hvaða þjóð hafnar í öðru sæti D-riðils. „Ég ætla að senda Afríkuþjóð áfram,“ bætir hann við og setur upp leik Frakklands og Nígeríu í 16 liða úrslitum.
Norðurlandaþjóðirnar verða ekki lengi í Rússlandi að mati Mourinho því hann spáir því einnig að Svíþjóð sitji eftir í F-riðli í baráttunni við Þýskaland og Mexíkó.
Innslagið má sjá hér að neðan en svo er bara að vona að hann hafi rangt fyrir sér.