Innlent

Segir hluta stjórnar­and­stöðunnar þyrla upp mold­viðri í um­ræðunni um veiði­gjöld

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er ráðherra ferðamála.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er ráðherra ferðamála. Vísir/eyþór
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segir hluta stjórnarandstöðunnar þyrla upp moldviðri í umræðunni um veiðigjöld sem farið hefur hátt undanfarna daga eftir að tilkynnt var að meirihluti atvinnuveganefndar hefði samþykkt frumvarp til lækkunar veiðigjalda á útgerðina.

Þetta kom fram í ræðu Þórdísar á eldhúsdegi á Alþingi í kvöld en greint var frá áformum um lækkun veiðigjalda í liðinni viku. Sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar, að verið væri að endurreikna veiðigjöld miðað við afkomu greinarinnar í ár en ekki árið 2015. Sagði hún augljóst að afkoman hefði versnað frá því sem áður var.

Á Alþingi í kvöld sagði Þórdís að það væri eðlileg og skynsamleg tillaga að miða veiðigjald útgerðarfyrirtækjanna við nýjar upplýsingar um afkomu greinarinnar frekar en gamlar.

„Þessa dagana reynir hluti stjórnarandstöðunnar að þyrla upp moldviðri vegna þeirrar skynsamlegu og eðlilegu tillögu, að miða veiðigjald útgerðarfyrirtækja við nýjar upplýsingar um afkomu greinarinnar frekar en gamlar. Það eru vonbrigði að sumum virðist ómögulegt að komast úr skotgröfunum. Þáverandi sjávarútvegsráðherra studdi það markmið, í viðtali við RÚV síðastliðið sumar, að veiðigjöldin yrðu miðuð við nýrri upplýsingar en verið hefur. Enda hefur þetta verið nokkuð almennt viðurkenndur galli á álagningunni. En núna tala forsvarsmenn sama flokks eins og hér sé ægilegt hneyksli á ferðinni. Sá málflutningur stenst enga skoðun,“ sagði Þórdís en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður og þingmaður Viðreisnar, var sjávarútvegsráðherra síðasta sumar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×