Melania hefur ekki sést á almannafæri frá 10. maí þegar forsetahjónin tóku á móti þremur Bandaríkjamönnum sem höfðu verið fangar í Norður Kóreu. Mörgum þykir fjarvera Melaniu einkennileg en forsetafrúr Bandaríkjanna eru ekki síður opinberar persónur en eiginmenn þeirra.
Sögusagnir um hugsanlegar lýtaaðgerðir eða mögulegan flutning hennar til New York voru orðnar áberandi á samfélagsmiðlum. Melania fór í nýrnaaðgerð um miðjan maí en var aðgerðin sögð minniháttar.

I see the media is working overtime speculating where I am & what I'm doing. Rest assured, I'm here at the @WhiteHouse w my family, feeling great, & working hard on behalf of children & the American people!
— Melania Trump (@FLOTUS) May 30, 2018
Um helgina var forsetinn í Camp David, sveitabústað forseta Bandaríkjanna, með börnum sínum Donald Trump Jr, Tiffany Trump, Ivönku Trump og tengdasyninum Jared Kushner. Melania var ekki með þeim samkvæmt frétt BBC.
Í gær tilkynnti talskona hennar svo að hún muni ekki fylgja forsetanum á fund G-7 ríkjanna og að ekki standi til að hún fylgi honum til Singapúr seinna í mánuðinum. Í kvöld munu forsetahjónin þó halda móttökuveislu fyrir fjölskyldur fallinna hermanna, en viðburðurinn verður ekki opinn fjölmiðlum.