Fótbolti

Rúrik: Er svolítið fyrir að sýna mig

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rúrik Gíslason í leiknum í kvöld.
Rúrik Gíslason í leiknum í kvöld. Vísr/Andri Marinó
Einn af ljósu punktunum við leik Íslands og Noregs í kvöld var frammistaða Rúriks Gíslasonar sem var óumdeilt besti maður Íslands í leiknum. Rúrik hefur síðustu ár fá tækifæri fengið í byrjunarliði Íslands en nýtti það vel í kvöld.

„Mér finnst bara nokkuð gaman í fótbolta þessar vikurnar,“ sagði Rúrik kátur eftir leikinn í kvöld. „Ég er þakklátur fyrir það nýja líf sem ég fékk frá þjálfara mínum í Sandhausen í janúar. Mér líður bara vel inni á vellinum og reyni að gera það sem ég geti.“

Hann var vel meðvitaður um að leikurinn í kvöld hafi verið gott tækifæri til að sýna að hann eigi skilið að fá mínútur með íslenska landsliðinu á HM í sumar. Rúrik var ekki valinn í EM-hóp Íslands fyrir tveimur árum síðan.

„Ég er dáldið mikið fyrir það að sýna mig. Það verður bara að segjast eins og er,“ sagði Rúrik og hló. „En í fullri alvöru þá líður mér vel í líkamanum og ég vona að ég geti hjálpað íslenska liðinu á HM.“

Hann spilaði mun meira eftir áramót en fyrir áramót en sagði að þrátt fyrir mikið álag síðustu mánuði líði honum vel. „Ég nýtti fríið mitt eftir tímabilið vel. Slakaði vel á á milli æfinga en æfði svolítið öðruvísi, án þess að spila endilega fótbolta. Mér líður heilt yfir mjög vel,“ sagði Rúrik.

Rúrik segir að Íslendingar hafi haft góð tök á leiknum í stöðunni 2-1. „Það var óþarfi að tapa leiknum. En við vorum togaðir niður á jörðina og kannski var það bara allt í lagi.“




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×