Fótbolti

Ekki fara á ranga staði í Rússlandi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lars Lagerbäck á hlaupabrautinni með kollegum sínum í landsliðinu fyrir leik.
Lars Lagerbäck á hlaupabrautinni með kollegum sínum í landsliðinu fyrir leik. Vísir/Andri Marinó
Lars Lagerbäck, þjálfari norska karlalandsliðsins í knattspyrnu, telur að sanngjörn úrslit í leik liðanna í kvöld hefðu verið jafntefli. Þeir norsku unnu 3-2 sigur með tveimur mörkum á lokakaflanum þar sem vörn Íslands leit illa út. Lars sagði leikinn hafa verið svipaðan og hann bjóst við. Síðasta kennslustund Lars, segir í umfjöllun Vísis.

„Ég held að þetta hafi verið 50/50 leikur, jafntefli hefðu verið sanngjörn úrslit,“ sagði Lars á fundi með blaðamönnum eftir leikinn. Sá sænski var léttur, brosti og hafði á orði að blaðamenn mættu spyrja hann eins lengi og þeir vildu. Þetta væri að öllum líkindum í síðasta skipti sem hann sæti í þessu sæti á Laugardalsvelli.

Sagði hann fjölmiðlafulltrúa norska liðsins að hann myndi bara labba heim á Grand hótel, þar sem norska liðið gistir.


Albert Guðmundsson spilaði síðustu fimm mínúturnar í kvöld.Vísir/Andri Marinó

Einstakur árangur frá 2013

„Ég minnti Heimi á að Ísland hefði ekki tapað hérna síðan árið 2013 gegn Slóveníu,“ sagði Lars.

Það er frábær árangur.

Engin spurning. Okkar menn voru taplausir í sextán leikjum í Laugardalnum, 13 sigrar, þrjú jafntefli og 22 mörk í plús (31-9. Sturlaður árangur. Sigurganga Lars í dalnum heldur áfram þótt geggjaðri siglingu okkar manna hafi lokið í kvöld.

Lars tók upp hanskann fyrir íslenska liðið. Leikmenn væru ekki heilir, mörkin hefðu verið klaufaleg og svo gæti það hentað íslenska liðinu illa að spila gegn liði sem svipar til Íslands. 

En að fá á sig þrjú mörk gegn Norðmönnum, með Argentínu handan við hornið? Það lítur ekki vel út.

„Já, en Heimir skipti mönnum út. Hann saknaði líka leikmanna og þarf að taka það með í reikninginn,“ sagði Lars. Hann minnti á hve ólíkir andstæðingar Noregur og Argentína væri. Norðmenn væru skipulagðir, með líkamlega sterka leikmenn. 

„Þú átt alltaf möguleika í fótbolta,“ sagði Lars og minnti á styrkleika Íslands, alla jafna, að verjast vel.

Þú átt alltaf möguleika í fótbolta er mantra sem Lars hefur hamrað á í gegnum árin, orð að sönnu.


Gylfi Þór Sigurðsson skoraði gullfallegt mark sem stefndi í að yrði sigurmark Íslands, en svo fór aldeilis ekki.Vísir/Andri Marinó

Slakt gengi í æfingaleikjum

„Þegar ég sat á íslenska bekknum naut ég þess að horfa á Ísland spila. Þegar maður situr á hinum bekknum fattar maður hvað það er erfitt að spila á móti Íslandi, vörninni og skyndisóknunum,“ sagði Lars og var ekkert að skafa af aðdáun sinni á íslenska verkefninu.

Varðandi það hvort hann sæi einhverjar breytingar á liðinu frá því sem var undir hans stjórn sagði Lars svo ekki vera. Helst innkoma Harðar Björgvins í stöðu vinstri bakvarðar sem gefi Íslandi aðra kosti en áður. Hann búi yfir spyrnugetu og auki styrk Íslands í föstum leikatriðum.

Okkar mönnum gengur ekki vel í æfingaleikjum. Vertíð Heimis og Lars með liðið á sínum tíma byrjaði á tapleikjum í æfingaleikjum. Fyrsti keppnisleikurinn var 2-0 sigur á Norðmönnum. Æfingaleikir fyrir EM 2016 gengu ekki vel. Lokakeppnin gekk aldeilis vel. Nú sigra Norðmenn í Dalnum. Hvað veldur? Lars var beðinn um að tjá sig um það.

Helsti punktur Lars hvað það varðaði sneri að því að hjá litlum liðum eins og Noregi og Íslandi þá þurfi liðið frábæra frammistöðu í öllum leikjum. Alveg eins og hjá Íslandi hafi ekki gengið vel í æfingaleikjum hjá Noregi. Leikmenn séu þó að læra hlutverk sín og gengið að skána, meðal annars með sigrinum í kvöld.

Minntur á tapið gegn Noregi í æfingaleik fyrir EM fyrir tveimur árum, hvort að þetta gefi ekki bara fögur fyrirheit?

„Ég ætla að vona það.“

Hannes Þór Halldórsson og Aron Einar Gunnarsson voru á varamannabekknum í dag vegna meiðsla sinna.Vísir/Andri Marinó

Kom Tólfunni á óvart

Lars kíkti með Heimi Hallgrímssyni, þjálfara Íslands, á Ölver fyrir leikinn í dag þar sem byrjunarlið Íslands var kynnt. 

„Heimir bað mig um að koma. Hann byrjaði á þessari hefð þegar við vorum ráðnir, til að fá stemmningu í Tólfuna aftur,“ sagði Lars. Það kom honum á óvart að hann hafði ekki látið Tólfuna vita af komu sinni.

„Þeir áttu ekki von á mér,“ sagði Lars sem þakkaði kærlega fyrir Tólfuhring sem hann fékk gefins. Hann hefði spjallað við stuðningsmenn og samskiptin verið einlæg og vinaleg. Hann gaf Tólfunni norska landsliðstreyju með áletrun um gott gengi Tólfunnar í Rússlandi.

Ég held að þeir hafi kunnað að meta það.

Lars minntist á frábæra afgreiðslu Gylfa í öðru marki Íslands, vinalegt spjall við Birki Bjarna um lífið og tilveruna eftir leik og vinaleg samskipti sín við stuðningsmenn og fjölmiðlamenn á tíma sínum hjá Íslandi.

„Þakka ykkur kærlega fyrir. Þetta hefur verið frábært,“ sagði Lars og stóð upp úr sætinu.

„Ekki fara á ranga staði í Rússlandi,“ bætti Lars við þegar hann gekk út og fékk salinn til að skella upp úr.


Tengdar fréttir

Frederik: Getur verið vitur eftir á

Frederik Schram, markvörður Íslands gegn Noregi í kvöld, sagðist sjá eftir því að hafa reynt að sóla Joshua King í öðru marki Noregs í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×