Feðgarnir Oddur Sigurðsson, Jón Bjarki Oddsson og Sigurður Pétur Oddsson lögðu klukkan 18 af stað í maraþongolf á Hlíðavelli hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar. Þeir ætla að spila golf í heilan sólarhring eða til klukkan 18 á morgun laugardag. Allir hafa þeir hlaupið heilt maraþon áður til styrktar MND félaginu á Íslandi og taka því hér nýrri áskorun.
Markmiðið með maraþon golfinu er að vekja athygli á MND heyfitaugahrörnunar sjúkdómnum og á sama tíma safna styrkjum fyrir MND félagið á Íslandi. Félagið vinnur að velferð þeirra sem haldnir eru sjúkdómnum eða öðrum vöðva og taugasjúkdómum með sömu eða svipaðar afleiðingar.
„Skorað er á almenning, fyrirtæki, stofnanir, bæjarfélög og einstaklinga að heita á feðgana og styrkja á sama tíma MND félagið á Íslandi. Þeir sem vilja leggja þessu mikilvæga málefni lið geta lagt sitt framlag beint inn á reikning MND félagsins Rn: 0516-05-410900 Kt: 630293-3089. Einnig er hægt að hafa samband á gudjon@mnd.is,“ segir í tilkynningu.
Þeir feðgar hafa fengið til liðs við sig frábæra félaga sem ætla að leika með okkur 9 holur hver, hafa gaman saman og þannig hjálpa þeim ná markmiðunum. Þá eru allir boðnir velkomnir í nýtt klúbbhús í Mosfellsbæ um helgina, með gleðina að vopni, og njóta helgarinnar.
„Lífið er núna og golfum saman fyrir lífið.“

