Vanalega sér Guðmundur Hreiðarsson, markvarðaþjálfari íslenska liðsins, um æfingar markvarðanna þriggja en styrktarþjálfarinn Sebastian Boxleitner hjálpaði til í dag.
Þjóðverjinn skellti gleraugum á markverðina þrjá sem skerða sjónina verulega en þau eru hönnuð til þess að bæta viðbrögð markvarða. Þetta er afar vinsælt í markvarðafræðum nú til dags.
Inn í gleraugunum er ljós sem blikkar þannig að mjög erfitt er að sjá með þau á sér. Þau fækka römmum sem mannsaugað sér um tuttugu, að sögn þýska styrktarþjálfarans.
Fótboltatímaritið FourFourTwo fjallaði um þessi gleraugu eftir að svissneski landsliðsmarkvörðurinn Yann Sommer sást reglulega með þau. Í úttekt tímaritsins segir að mælt sé með því að notast ekki við gleraugun í meira en fimmtán mínútur á dag.
Umgjörð strákanna okkar er alltaf að verða betri og meira fjármagni eytt í tæki og tól. Gleraugu sem þessi eru sögð kosta ríflega 350 evrur eða 40.000 krónur.
Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á Facebook, Twitter og Instagram.
