Innlent

Slagsmál og sprey á Laugavegi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það var nóg um að vera á Laugavegi í nótt.
Það var nóg um að vera á Laugavegi í nótt. VÍSIR/VILHELM
Hópslagsmál brutust út á Laugavegi á öðrum tímanum í nótt. Fram kemur í skeyti lögreglunnar að þar hafi fjórir einstaklingar ráðist að einum. Þegar lögreglan kom á vettvang voru slagsmálin þó yfirstaðin og „engar kröfur frá neinum,“ eins og það er orðað.

Engu að síður hafði lögreglan afskipti af einum slagsmálahundanna en hann reyndist vera með tvo ólöglega hnífa á sér. Þeir voru teknir af honum og minnir lögreglan á að vopnaburður á almannafæri er bannaður með lögum.

Þá voru tveir karlar og ein kona, öll á þrítugsaldri, áminnt fyrir að spreyja á húsgafl á Laugavegi skömmu eftir klukkan tvö í nótt. Í samtali við lögreglumenn neituðu þau öll sök - þrátt fyrir að athæfi þeirra hafi náðst á upptöku eftirlitsmyndavéla. Ekki fylgir sögunni hvort þau hafi hlotið sekt fyrir vikið en spreybrúsar þeirra voru í það minnsta haldlagðir.

Einnig voru nokkrir ökumenn stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum vímuefna. Við sýnatöku kom í ljós að einn þeirra reyndist undir áhrifum þremur mismunandi efna, annar fjórum og sá þriðji hafði neytt fimm mismunandi fíkniefna áður en hann settist undir stýri. Allir voru þeir látnir lausir að lokinni sýnatökunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×