Harry Kane ætlar sér að verða markakóngur HM í Rússlandi þrátt fyrir að hafa enn ekki skorað mark í lokakeppni stórmóts á ferlinum.
Kane, sem var í harðri baráttu um markakóngstitil ensku úrvalsdeildarinnar við Mohamed Salah þar til hann meiddist fyrr á árinu, er fyrirliði enska landsliðsins í mótinu og trúir því að hann geti leitt England til sigurs.
Englendingar hafa valdið vonbrigðum á síðustu stórmótum og ekki komist lengra en í 16-liða úrslit síðan 2006. Þeir duttu út í 16-liða úrslitum á EM í Frakklandi 2016 eftir heimsfrægt tap fyrir Íslendingum.
„Ég á marga verðlaunagripi sem ég hef fengið fyrir markaskorun í gegnum árin. Ég væri til í að sitja hér eftir nokkrar vikur með stóru gullstyttuna [verðlaunagrip HM],“ sagði Kane á blaðamannafundi í gær fyrir leik Englands og Túnis.
Cristiano Ronaldo byrjaði keppnina með trompi og setti þrennu í fyrsta leik fyrir Portúgal gegn Spánverjum. Kane segir Ronaldo hafa sett pressu á sig.
„Vonandi skora ég þrennu líka og við verðum jafnir. En ég mun ekki einbeita mér að markafjölda fyrr en seinna í mótinu,“ sagði nokkuð kokhraustur Kane.
England hefur leik í G riðli í kvöld gegn Túnis í Volgograd. Leikurinn hefst klukkan 18:00 og verður í beinni textalýsingu hér á Vísi. Með Englandi og Túnis í riðli eru Belgía og Panama.

