„Það eru náttúrulega margir þreyttir og við leyfum þeim að stjórnar álaginu í dag, keyrum á hina,“ sagði Heimir. Ferðalagið til baka til Kabardinka gekk ekki áfallalaust fyrir sig í gær.
„Það var seinkun á fluginu svo við lentum seint og ekki búnir að sofa alveg nógu mikið. Menn eru þreyttir og lúnir,“ sagði Heimir. Það hefði kostað mikla orku að verjast í gær, meiri orka fari yfirleitt í að verjast en að vera með boltann.
„Strákarnir eiga skilið að hvíla í dag.“

„Nei, ég myndi segja að fyrsta hugsun sé að hann verði meiddur í næsta leik, verði ekki búinn að ná sér. Maður veit aldrei. Kannski er þetta sambland af krampa og tognun.“
Heimir hrósaði varnarleik okkar manna í hástert.
„Við töpuðum ekki mörgum návígum einn gegn einum þrátt fyrir að hafa verið mikið í vörn. Þetta var algjört skólabókardæmi hvernig á að verjast. Ég hugsa að við höfum ekki fengið verri opin færi en þeir. Hefðum allt eins getað stolið þessum sigri,“ sagði Heimir.
Hann segist ofboðslega ánægður með agann og einbeitinguna. Í svona leik megi ekki missa einbeitinguna í eina sekúnda. Þó geti liðið auðvitað bætt sig á mörgum sviðum, sérstaklega þegar liðið er með boltann.
„Þetta er örugglega einn besti varnarleikur sem við höfum spilað, sérstaklega í ljósi þess við hverja við vorum að spila. Einstaklingsgæðin í þessu liði… Það hljóta allir að sjá hve góður varnarleikurinn var. “

„Núna erum við að fara að spila við Nígeríu í steikjandi hita, í Volgograd. Það verður allt öðruvísi leikur. Þetta eru kraftmiklir leikmenn, spila á háu tempói og eru líkamlega sterkir,“ sagði Heimir. Þeir séu „direct“, beinskeittir.
„Við þurfum að safna orku fyrir þann leik. Breyta aðeins um hugsun, skipta um gír,“ sagði Heimir. Strákarnir geri upp Argentínuleikinn í kvöld og svo fari allur fókus á leikinn gegn Nígeríu. Hann á von á að Nígería verði mjög svipaður andstæðingur og Gana var á Laugardalsvelli í síðustu viku. Þeim leik lauk með 2-2 jafntefli þar sem dró mikið af leikmönnum Íslands í síðari hálfleik.
„Það var frábært að fá Ganaleikinn fyrir Argentínuleikinn en ekki síst fyrir þennan Nígeríuleik.“
Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á Facebook, Twitter og Instagram.