Erlent

Varar við kynlífi með útlendingum á HM

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þúsundir stuðningsmanna af öllum kynjum og kynþáttum flykkjast nú til Rússlands.
Þúsundir stuðningsmanna af öllum kynjum og kynþáttum flykkjast nú til Rússlands. Vísir/AP
Rússneskur stjórnmálamaður varar þarlendar konur við því að sænga hjá körlum sem eru ekki hvítir meðan að heimsmeistaramótið í knattspyrnu stendur yfir. Tamara Pletnyova segir að það væri agalegt ef þær myndu sitja upp einstæðar með „blönduð börn“ að mótinu loknu.

Pletnyova, sem fer fyrir fjölskyldumálanefnd rússneska þingsins, segir að það þýði ekki heldur fyrir þær að giftast útlendingunum sem þær sængi hjá. Þau sambönd endi oftar en ekki illa enda hafi rússneskar konur átt í erfiðleikum með að fá forræði fari svo að karlinn flýi með börnin úr landi.

Þingmaðurinn ræddi þessi mál í samtali við rússneska útvarpsþátt en þáttastjórnandinn hafði spurt út í hin svokölluðu „Ólympíuleikabörn.“ Hugtakið er notað yfir þau börn sem getin voru eftir alþjóðlega íþróttaviðburði í Sovétríkjunum sálugu og hafa þau, að sögn Guardian, mætt miklum fordómum vegna uppruna síns.

„Við verðum að ala okkar börn. Þessi blönduðu börn þjást og hafa þjáðst síðan á tímum Sovétríkjanna,“ sagði Pletnyova. „Það er eitt ef þau eru af sama kynþætti en allt annar handleggur ef þau eru af öðrum kynþætti. Ég er ekki þjóðernissinni en ég veit engu að síður að þessi börn verða fyrir fordómum. Þau eru skilin eftir, ein með móður sinni.“

Pletnyova bætti jafnframt við að það væri von hennar að Rússar gengju í hjónaband ástarinnar vegna en ekki bara vegna þess að þeir væru af sama kynþætti.

Annar rússneskur stjórnmálamaður, Alexander Sherin, varaði einnig við útlendingunum sem munu flykkjast til Rússlands vegna HM. Ekki aðeins myndu þeir flytja fíkniefni til landsins heldur einnig alls kyns sjúkdóma sem gætu smitað Rússa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×