Erlent

Mágur Spánarkonungs dæmdur í fangelsi

Kjartan Kjartansson skrifar
Urdangarin fékk dóm sinn mildaðan í Hæstarétti en þarf engu að síður að sitja í fangelsi að öllu óbreyttu.
Urdangarin fékk dóm sinn mildaðan í Hæstarétti en þarf engu að síður að sitja í fangelsi að öllu óbreyttu. Vísir/EPA
Hæstiréttur Spánar staðfesti fangelsisdóm yfir mági Filippusar konungs vegna fjársvika í dag. Mágurinn gæti því orðið fyrsti meðlimur spænsku konungsfjölskyldunnar sem fer í fangelsi í seinni tíð.

Iñaki Urdangarin er eiginmaður Kristínar prinsessu, systur Filippusar. Hún var einnig rannsökuð vegna viðskipta eiginmanns hennar en var sýknuð af ákæru á lægra dómstigi. Urdangarin var dæmdur fimm ára og tíu mánaða fangelsi, fimm mánuðum skemur en héraðsdómstóll á Mallorca hafði dæmt hann til að afplána.

Hæstiréttur lækkaði jafnframt sekt sem Kristín hafði verið dæmd til að greiða vegna aðildar sinnar að brotum Urdangarin.

Mál hjónanna varðar fjármál félagasamtaka þar sem Kristín sat í stjórn og fasteignafélags í eigu þeirra. Urdangarin var sakaður um að hafa dregið að sér meira en sjö milljónir dollara, að sögn New York Times. Urdangarin getur enn reynt að skjóta máli sínu til stjórnlagadómstóls Spánar.

Filippus tók við krúnunni árið 2014 en þá hafði Urdangarin þegar verið settur út af sakramentinu hjá konungsfjölskyldunni. Konungurinn hefur síðan slitið opinber tengsl konungsfjölskyldunnar við Kristínu prinsessu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×