KR-ingar hafa boðað til blaðamannafundar í hádeginu í dag. Tilefni fundarins er ráðning á nýjum þjálfara meistaraflokks karla en Finnur Freyr Stefánsson yfirgaf félagið á dögunum eftir að hafa unnið fimmta Íslandsmeistaratitilinn í röð.
Heimildir herma að Ingi Þór Steinþórsson sé að snúa aftur í Vesturbæinn en hann hefur þjálfað Snæfell undanfarin 9 ár. Ingi Þór hampaði einum Íslandsmeistaratitli í karlaflokki í Stykkishólmi og gerði kvennaliðið þrívegis að meisturum.
Hann þekkir vel til í Vesturbænum enda uppalinn KR-ingar. Hann stýrði KR til Íslandsmeistaratitils árið 2000 og var aðstoðarþjálfari Benedikts Guðmundssonar þegar KR varð meistari 2009.
Á fundinum verða einnig undirritaðir nýir samningar við leikmenn en fyrirliði KR á síðustu leiktíð, Brynjar Þór Björnsson hefur yfirgefið félagið auk þess sem reynsluboltinn Darri Hilmarsson verður ekki með KR á næstu leiktíð.
