Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis lagði fram breytingartillögu þessa efnis við frumvarp um breytingar á lögum um farþegaflutninga og farmflutninga. Tillaga nefndarinnar var gerð vegna umsagnar bandaríska fyrirtækisins Backroads við frumvarpið.
Frumvarpið var samþykkt með breytingu nefndarinnar í gær.

Backroads notar smárútur fyrir gesti félagsins hér á landi og í umsögn fyrirtækisins er því haldið fram að skilyrði íslenskra laga um sérstök leyfi fyrir fólksflutninga í ferðaþjónustu fari í bága við þjónustutilskipun ESB vegna kröfu um fasta starfstöð hér á landi. Í umsögn Backroads er lagt til að lögunum verði breytt þannig að fyrirtæki sem veita tímabundna þjónustu hér á landi á grundvelli EES-samningsins verði undanþegin þessum kröfum.
Í nefndaráliti er bent á að þrátt fyrir heimildir fyrirtækja á EES-svæðinu til að veita tímabundna þjónustu hér á landi, sé það stjórnvalda að meta hverju sinni hvort þjónusta telst vera tímabundin. Nefndin telji eðlilegt að aðilar með viðamikla starfsemi hér á landi sem taka virkan þátt á markaðinum í samkeppni við íslensk fyrirtæki þurfi að uppfylla ákveðin grunnskilyrði óháð því hvort þau eru með staðfestu á Íslandi. Það sé til þess fallið að tryggja öryggi neytenda og tryggja jafna samkeppnisstöðu á markaðinum án þess að útiloka erlenda aðila frá aðkomu að honum.