Sjá einnig:Hannes: „Mér fannst ég verða að segja nokkur orð“
„Þetta er búið að vera óraunverulegt í langan tíma en núna allt í einu er þetta orðið raunverulegt og er bara að byrja. Það er mikil ánægja með það. Það er gaman að vera mættir hérna og þá bara keyrum við þetta í gang,“ segir Hannes.
Aðstæður í Annecy í Frakklandi fyrir tveimur árum voru ekkert slor og bærinn töluvert flottari en í Gelendzhik. Okkar menn eru samt ekkert að kvarta enda búið að gera allt sem mögulegt er svo dvöl þeirra verði sem best.
„Völlurinn er frábær og hótelið mjög fínt. Það er ósanngjarnt að vera að bera þetta saman við Annecy sem var algjör paradís á jörð. Það breytir því ekki að hér er allt virkilega fínt og það er búið að gera allt sem hægt er þannig að okkur líði vel,“ segir Hannes, en að þessu sinni eru þeir ekki með allt hótelið sitt út af fyrir sig.
„Þetta truflar okkur ekki. Maður finnur ekkert fyrir því að það sé annað fólk á hótelinu. Við erum með okkar eigin hæð og erum út af fyrir okkur en það truflar okkur ekkert þó svo að það sé einn og einn hótelgestur á stangli,“ segir Hannes.
Fyrsta æfing strákanna í Kabardinka var opin og fylgdust um 2.000 manns með íslenska liðinu fara í gegnum fyrstu æfinguna. Mikil stemning ríkti og var klappað fyrir góðum mörkum og góðum markvörslum.
„Þetta var öðruvísi upplifun og bara mjög gaman. Það var í gær sem maður virkilega áttaði sig á því að maður er kominn á heimsmeistaramótið. Maður fann ekki alveg fyrir því þegar að við komum á hótelið. Það voru sumir sem að höfðu orð á því. En, svo þegar að við mættum á æfingasvæðið og maður sá alla veggi með FIFA-merkinu og myndum fór maður að átta sig á þessu,“ segir Hannes Þór Halldórsson.
Allt viðtalið má sjá hér að neðan.
Vísir verður með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á Facebook, Twitter og Instagram.