Rammasamningur ríkisins við sérfræðilækna um veitingu heilbrigðisþjónustu utan opinbera heilbrigðiskerfisins verður ekki endurnýjaður í óbreyttri mynd, sem opinn rammasamningur. „Sá samningur yrði mun skýrari um hvað ríkið kaupir af sérfræðilæknum,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Rammasamningurinn felur í sér að ríkið niðurgreiðir og tekur þátt í kostnaði við þá heilbrigðisþjónustu sem veitt er utan opinbera heil- brigðiskerfisins að stórum hluta.
Um áramót rennur út rammasamningur hins opinbera við sérfræðilækna og eru þrír leikir í stöðunni. Í fyrsta lagi að gera nýjan samning við sérfræðilækna, í annan stað að láta núgildandi samning renna út, og sá þriðji að framlengja hann á meðan unnið er að breytingum á honum. Að mati heilbrigðisráðherra er mikilvægt að samningnum sé breytt. Heilbrigðiskerfið sé brotakennt og það þurfi að horfa heildstætt á vanda þess.
Sérfræðilæknar hafa óskað upplýsinga frá heilbrigðisráðherra um hvað hún hyggist gera í málefnum sérfræðilækna. Einstaklingar sem fara í aðgerð í sumar gætu þurft á endurkomu að halda eftir áramót. Verði engir samningar á borðinu þá gæti kostnaður sjúklinga hækkað gríðarlega.
Forstjóri Sjúkratrygginga segir stofnunina hafi fengið fyrirmæli frá velferðarráðuneytinu um að nýjum læknum verði ekki hleypt inn á samninginn óháð mati á þörf fyrir læknana. Það eitt og sér feli í sér brot á núgildandi samningi.
