Eins og alþjóð veit sér Siggi um búningamál strákanna og var ekkert lítið magn af klæðnaði sem kom með liðinu til Rússlands í gær. Það tók góðan tíma að pakka því öllu saman heima á Íslandi og verkefni dagsins, eða mögulega næstu daga, er að koma skipulagi á hlutina. Það segir Kristinn V. Jóhannsson, vallarstjóri á Laugardalsvelli, sem heldur utan um allan fatabúnað ásamt Sigga.
Er óhætt að segja að Sigga hafi verið sárt saknað þá tæpu tvo tíma sem æfing landsliðsins tók enda vanur að gefa sig á tal við fjölmiðlamenn og gefa af sér. Sannkallaður gleðigjafi. Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari hefur reglulega nefnt Sigga frægasta búningastjóra í heimi, og líklega orð að sönnu.

Þekkir hvert strá á Laugardalsvelli
„Siggi er uppi á hóteli að reyna að koma skipulagi á hlutina,“ sagði Kristinn í léttu spjalli á meðan opinni æfingu landsliðsins stóð í dag. Kristinn var á svæðinu til að fylgjast með aðstæðum á vellinum enda öllum hnútum kunnugur í þeim bransa enda slegið það nokkrum sinum í gegnum árin.„Þeir byrjuðu að vinna í þessum velli í desember og janúar, bæði stúkunni og vellinum,“ segir Kristinn.
„Þeir lögðu nýtt gras og hafa hugsað vel um hann fram að móti,“ segir Kristinn í steikjandi hita í Gelendzhik.
„Þetta er loftslag sem við erum ekki vanir. Við erum með einhverjar óskir sem þeir (vallarstarfsmenn) eru á móti. Við erum ekki vanir því að hafa 32 gráður. Við verðum að virða þeirra skoðanir, eða komast að sameiginlegri niðurstöðu um hvað er best fyrir liðið. Varðandi slátturhæð, vökvun og svoleiðis.“

Sjokk að fá ískalt vatn
Leikmenn höfðu á orði að grasið hefði verið frábært í byrjun æfingar, þegar völlurinn var nývökvaður en gamanið hefði kárnað eftir því sem leið á og völlurinn þornaði.„Við létum vökva hann fyrir æfingu og ætluðum að vökva í miðri æfingu en það var eitthvað flókið. Við verðum bara að bæta úr því á morgun. Við æfum hálftíma fyrr á morgun og vökvum kannski meira fyrir æfinguna. Þeir hafa hugmyndir um að það sé of heitt til að vökva og það hafi áhrif. Við veðrum að treysta þeirra orðum og kynna mér þetta betur.“
Kristinn þekkir grasið betur en flestir.
„Þegar það er svona heitt er mikið sjokk fyrir völlinn að fá ískalt vatn á sig. Það getur haft slæm áhrif, alveg eins og hann getur þornað upp. Við þurfum að finna einhverja niðurstöðu í sameiningu,“ sagði Kristinn yfirvegaður.