Við lúsatalningu í Tálknafirði sáust greinileg merki um að sú lús sem lifað hafði af í vetur var lífvænleg og byrjuð að tímgast og sáust merki um ný smit. Er þetta annað árið í röð sem bregðast þarf við lúsafaraldri í laxeldi í Arnarfirði.
Síðastliðið haust þurfti Matvælastofnun einnig að veita heimild til notkunar á lúsafóðri til að drepa laxalús sem hafði herjað á kvíar í Dýrafirði og einnig í Arnarfirði sumarið 2017.

„Talið var að engar aðrar aðferðir hefðu nægt til að hreinsa fiskinn af lús og ljóst að ef ekki yrði farið í aflúsun á þessu stigi yrði lúsasmit orðið óásættanlegt síðsumars og í haust. Töluverð hætta væri þá á neikvæðum áhrifum á velferð fisksins og að auki verður að taka tillit til smitálags á villtan fisk og eldisfisk í nágrannafjörðum,“ segir í tilkynningu Matvælastofnunar sem hefur eftirlit með laxeldi hér á landi.

Jón Örn Pálsson sjávarútvegsfræðingur segir þetta staðfestingu á því að hitastig sjávar að vetri til sé ekki nægileg vörn gegn laxalúsinni. „Þessar fréttir staðfesta þetta. Talning á lús staðfestir að lúsinni fækkar ekki. Hún hins vegar fjölgar sér ekki á köldum vetrum. Nú er hins vegar spurning hvað fiskeldisfyrirtækin gera til að hvíla staðina,“ segir Jón Örn.
Aðrar leiðir gegn lús ekki fullreyndar
Fisksjúkdómanefnd lagðist gegn lyfjagjöf fyrir tæpum mánuði. 28. maí barst nefndinni erindi frá dýralækni Arnarlax hf. þar sem óskað var eftir heimild til að meðhöndla eldislax gegn laxalús með skordýaraeitrinu Alpha Max. Málið var tekið fyrir þann 31. maí.„Að umfjöllun lokinni komst fisksjúkdómanefnd að þeirri samdóma niðurstöðu að mæla ekki með því við Matvælastofnun að heimila umbeðna lyfjameðhöndlun, hvorki í Arnarfirði né Tálknafirði.“ „[...] fisksjúkdómanefnd gerir athugasemd við hversu litla tilburði Arnarlax hefur sýnt gagnvart lyfjalausum og fyrirbyggjandi aðferðum í baráttunni við laxalúsina. Ekki hefur verið sýnt fram á að aðrar leiðir hafi verið fullreyndar á umræddum eldissvæðum, fyrirbyggjandi eða til að draga úr sýkingu.“